Einnota plast

Plastlaus september er árvekniátak að erlendri fyrirmynd. Átakið hefur það markmið að vekja fólk til umhugsunar um skaðsemi plasts og lausnir til að draga úr notkun á því. Hér er lögð áhersla á einnota plast, en einnota plast á þó í sumum tilvikum alveg rétt á sér, eins og framboð er á umbúðum í dag, svo sem í heilbrigðisgeiranum. 

Myndaniðurstaða fyrir penguin ladder toy

Fjölnota plast á líka pláss á meðal vor, svo fremi sem það sé endurvinnanlegt og innihaldi ekki skaðleg íblöndunarefni. Mér verður hugsað til mörgæsastigans sem ég held að sé enn uppi á lofti hjá foreldrum mínum.

Mörgæsastiginn er kannski ekki alveg besta dæmið um plast sem er ekki alslæmt, enda allheilalaust og hver veit hvað reglugerðir þess tíma sem stiginn var í framleiðslu höfðu að segja um íblöndunarefni. Skárra dæmi er IKEA plastbalinn sem ég keypti notaðan í Góða hirðinum. Fjölnota, léttur og tærist ekki. Sem fyrr segir, er lögð áhersla á einnota plast hér.

Framleiðsla á plasti

Árlega, núorðið, eru framleidd rúmlega 300 milljón tonn af plastvörum. Helmingurinn, 150 milljón tonn, er einnota. 150.000.000.000 kíló. Það jafngildir 25 milljónum afrískra fíla (stofninn er rúmlega 350.000 einstaklingar), 100 milljónir rafmagnssmábíla eða 3,3 milljarðar af mér (mannkyn er 7,7 milljarðar).

Með því að útskýra langt framleiðsluferli plasts og takmörkuð förgunarúrræði vonast ég til að lesendur sjái að það er ekki skynsamlegt að skapa það að óþörfu. 

Hvaðan kemur plastið?

Plast er unnið úr hráolíu. Hráolía á í flestum tilvikum uppruna sinn að rekja til dauða sjávarlífvera fyrir tugum til hundruð milljón árum síðan. Þessar lífverur safnast upp og fjölmörg lög af sandi og leir fergja þær. Hiti og þrýstingur eykst eftir því sem ferging eykst. Olía myndast eða jarðgas.

Hráolían er sótt í gegnum borholur á bæði landi og í sjó.

Kortið hér að neðan sýnir staðsetningar sem tengjast olíuvinnslu á einhvern hátt.

Grænir punktar tákna hráolíuborun, rauðir punktar tákna olíuhreinsistöðvar, lillabláir punktar táknar olíuslys eða frávik. Bleikir punktar, gulir og gráir skipta ekki máli í þessari umræðu en tákna orkuver, gas, vind og vatnsaflsvirkjanir.
Myndaniðurstaða fyrir oil well
Hráolíuborun á landi
Olíuborpallur á hafi

Úrvinnsla hráolíu

Hráolían sem kemur úr borholum er flutt til olíuhreinsistöðva þar sem olían er brotin niður í smærri efnasambönd. Hvati er notaður til að tengja saman sameindir og búa til fjölliðukvoðu. Kvoðan er brædd, kæld og söxuð niður í litlar kúlur sem eru síðan sendar til framleiðenda á plastvörum víða um heim.

Einhverjir muna kannski eftir hugmyndum um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum sem kom til umræðu á fyrri hluta 21. aldar.

Myndaniðurstaða fyrir oil refinery
Olíuhreinsistöð
Plastflöskuframleiðandi

Flutningur hráefnis á milli staða

Eins og sjá má, á kortinu hér að ofan, eru borholurnar ekki á sama stað og olíuhreinsistöðvarnar, og að sama skapi eru plastframleiðslufyrirtæki ekki á sama stað og olíuhreinsistöðvarnar. Þar af leiðandi þarf að flytja hráefnið á milli staða. Samgöngurnar notast við jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. 

Önnur umhverfisáhrif

Það þarf ýmis konar hráefni til að byggja borpallana, hreinsistöðvarnar, framleiðslufyrirtækin – svo og samgöngutækin. Vinnsla tilheyrandi hráefna og flutningur þeirra losar gróðurhúsalofttegundir. 

Vinnsla þessara hráefna og öflun og vinnsla olíunnar krefst orku, lands og vatns. Það fara til dæmis 3 L af vatni í framleiðslu á 0,5 L plastflösku. 

Svo er vert að minnast á olíuslys sem, að því virðist óhjákvæmilega, eiga sér stað og valda gríðarlegum skaða á lífríki eigi þau sér stað á sjó. Deepwater Horizon slysið kemur upp í hugann.

Dæmi um áhrif Deepwater Horizon olíuslyssins á lífríki.

Allt þetta ferli, fyrir hvað?

Miðað við alla þá orku og auðlindir sem fara í framleiðsluferli plasts, er frekar óábyrgt að versla vörur í einnota umbúðum og henda þeim síðan í ruslið eftir stutta og/eða takmarkaða notkun, þess vegna 2 mínútum eftir að varan kemur í hendurnar. Það gera samt margir, sbr. þessir 3,3 milljarðar af mér í formi einnota plasts sem falla til ár hvert. 

Förgun plasts

Helsta vandamálið við plast er nefnilega förgun þess. Plast er svo endingagott efni að það tekur tugi til hundruðir ára að brotna niður í sínar smæstu einingar. Það tekur eina bleyju 500 ár að brotna niður. Fimm. Hundruð. Ár. Það þýðir að allar einnota bleyjur Íslendinga fyrr og síðar eru enn í ágætu ásigkomulagi á urðunarstöðum um land allt. Þegar ég sagði manninum mínum þessa sturluðu staðreynd, sagði hann: “Segðu svo að maður skilji ekki eitthvað markvert eftir sig.” Ég hló.

Til að setja þetta í enn annað samhengi þá voru Spánverjar að nema land í Mexíkó fyrir 500 árum síðan, með tilheyrandi óþægindum fyrir Azteka.

Þessi gaur leiddi leiðangurinn:

Retrato de Hernán Cortés.jpg

Urðun

Plast getur verið endurunnið, urðað, brennt eða fleygt út í guðsgræna náttúruna.

Mismunandi efnum er bætt í plastblöndur til að gefa þeim misjafna eiginleika, svo sem aukinn sveigjanleika, gegnsæi, styrkleika og endingu. Mörg þessara efna heilsuspillandi.

Úrkoma á urðunarstað losar vatnsleysanleg efni úr sorpi, þ.m.t. plasti, og sé ekki skynsamlega gengið frá urðunarstað, s.s. með þéttingu botnlags og skolvökvasöfnunarkerfi, geta þessi efni lekið út í nærumhverfið og jafnvel komist í grunnvatn, árfarvegi eða sjó. Sé um að ræða heilsuspillandi plastíblöndunarefni eða önnur efni sem hættuleg eru heilsu getur þessi skolvökvi valdið skaða á lífríki. 

Íslenska gámafélagið og Samskip settu á laggirnar árvekni- og þrýstiátak sem heitir “Hættum að urða”. Stjórnvöld eru hvött til að finna lausnir til þess að koma í veg fyrir að sorp sé urðað.

Urðunarstaðurinn í Álfsnesi og aðrir staðir í nýrri kantinum eru ýmsum kvöðum háð og undir eftirliti, en það eru fjölmargir aðrir urðunarstaðir á landinu, misgamlir og frágangur þeirra væntanlega misjafn. Svo ekki sé minnst á alla urðunarstaðina sem ennþá eldri eru og hefur verið lokað. Hvað verður svo um þá urðunarstaði sem næstir eru sjó, nú þegar sjávarborð hækkar?

Plastmengun í hafi

Talað er um að 8 milljónir tonna af plasti rati til sjávar ár hvert. Ég held að við höfum flest rekist á myndbönd eða ljósmyndir af dýrum flækt í plastrusl. Hér að neðan er ársgömul ljósmynd af sel á Jökulsárlóni, með net flækt utan um hálsinn.

https://www.dv.is/wp-content/uploads/2018/08/Selur2-1024x683.jpg

Dýr eru ekki einungis að flækjast í plasti, heldur telja þau oft að um fæðu sé að ræða. Yfir 90% fugla eru með plast í maganum, skjaldbökur ruglast á marglyttum og plastpokum, dánir hvalir með maga stútfulla af plasti finnast stundum reknir á land. Plast í meltingarfærum dýra getur valdið stíflum og magasárum og/eða dýr finna til seddutilfinningar og deyja úr sulti. Einnig geta eiturefni í og á plasti getur valdið heilsuspillandi áhrifum sem leitt geta til dauða.

Tilvikin eru endalaus:

Skaði plastmengunar á lífríki.

Talið er að plast í sjónum muni verða meira en fiskur fyrir 2050. Nú þegar er það svo mikið að það hefur safnast fyrir á nokkrum svæðum í höfum jarðar. The Great Pacific Garbage Patch, sem á kortinu hér að neðan heitir Eastern Great North Pacific Gyre, er líklega þekktasta svæðið en nokkur hafa myndast til viðbótar, þar á meðal eitt svæði sunnan við Ísland. Nýlega birti Hafrannsóknarstofnun grein um plast í sjónum umhverfis Ísland. Þar segir að megnið af plastinu sé tengt sjávarútvegi. Þetta er í samræmi við niðurstöður rannsóknar á The Great Pacific Garbage Patch, en 46% reyndust vera fiskinet og stór hluti af þessum afgangs 54% annað tengt sjávarútvegi. 

Plasthringiður um allan heim

Örplast

Plast brotnar sífellt niður í smærri og smærri einingar og agnarsmáar einingar þess nefnast örplast, sem finnst nú nánast í öllu. Í fyrrnefndri grein Hafrannsóknarstofnunar segir m.a. „Lítið er enn sem komið vitað um það hvernig örplast berst um flókinn fæðuvef heimshafanna en rannsóknir hafa sýnt að plastagnir hafa áhrif á ýmsar sjávarlífverur m.a. á efnaupptöku á frumustigi, eru bólguvaldar, valda minnkun á fæðunámi og hafa áhrif á innkirtlastarfsemi (Wright et al. 2013a; 2013b).”

Brennsla

Brennsla á plasti til orkuöflunar er annar kostur. Brennsluver eru dýr í byggingu og rekstri og tryggja þarf að síukerfið sé það fullkomið að það sleppi ekki eiturefnum út í andrúmsloftið. Brennsluverin þurfa stöðugan straum af hráefni, sem oft kemur langt að. Plast frá a.m.k. einu sorpmeðhöndlunarfyrirtæki á Íslandi er sent til Svíþjóðar í brennslu, með tilheyrandi auðlindanotkun og kolefnisspori. Flutningunum til varnar, koma skip til landsins með varning og fara frá Íslandi með sorp til flokkunar á meginlandinu.

Endurvinnsla

Kolefnisspor endurvinnslu er lægra en við brennslu, enda kemur það að hluta til í veg fyrir að afla þurfi nýs hráefnis. Þó er einungis hægt að endurvinna 4 tegundir plasts af 7, við þurfum að flytja efnið erlendis og ferlið kostar auðlindir og orku. Hér, enn og aftur ferlinu til varnar, gildir hið sama og með sorp sem sent er erlendis til brennslu. Verið er að nýta ferðir skipa sem ella færu tóm frá landinu.

Myndaniðurstaða fyrir recyclability of plastic

Hvað finnst þér, kæri lesandi?

Hljómar eitthvað af þessu það vel að það réttlæti að einnota plast, með sinn gríðarlega langa aðdraganda og stutta notkunartíma, sé grafið, sleppt út í náttúruna eða sent til annarra landa til meðhöndlunar? Er eðlilegt að nota dýrmætar og endanlegar auðlindir á þennan hátt? 

Vitundarvakningar eru of hægvirkar og sjálfhverfa sumra (come at me, bros) nær engri átt. 

Því hafa margir blessunarlega gripið til banna. Lítið skref var tekið hérlendis, með plastpokabanninu í vor. Fleiri lönd hafa bannað plastpoka.

Indland hyggst banna nokkrar tegundir einnota plasts fyrir 2022. Kaliforníuríki í BNA stefnir að hinu sama fyrir 2030. 170 lönd skuldbundu sig til að draga úr notkun einnota plasts fyrir 2030, á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Afríku á árinu. 

Coca Cola og Pepsi hafa sagt sig úr Plastic Industry Association og vilja auka hlut endurunnins plasts í vörum sínum og tryggja að þær séu endurvinnanlegar. 

Ekki gera ekki neitt

Hugrænt misræmi er hugtak innan sálfræðinnar sem lýsir því þegar einstaklingurinn hefur ákveðna skoðun eða gildismat sem stangast á við gjörðir einstaklingsins. Þetta hugtak á t.d. við um einstakling sem veit af umhverfisáhrifum aðgerða sinna en flokkar samt ekki, tekur ekki fjölnota poka með sér í búðina og velur að nota einnota matardiska í næstu grillveislu eða afmæli, allt vegna þess að það er auðveldara.

Nú er ég búin að fara gróflega yfir umhverfisáhrif plasts og því getur lesandi hér ekki afsakað gjörðir sínar með fáfræði.

Það er kominn tími til að vakna upp af svefninum mikla og horfast í augu við neyslumynstrið sitt, því mannkyn er þegar farið að finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

Andvaraleysi og aðgerðarleysi eru verstu viðbrögðin.

Lausnir

Hvað getur einstaklingurinn gert? Heilan helling. Skynsamlegast er að gleypa ekki fílinn í heilu lagi; byrja á því sem auðvelt er, sem nýtist til uppörvunar til að leita lausna á því sem erfiðara er og/eða tekur lengri tíma að breyta.

Margir mæla með því að týna sorp upp úr ruslafötunum, rýna hvað fellur til og vega og meta hvort útrýma megi neyslu einhvers sem skapar óþarfa sorp eða hvort skipta megi vöru út fyrir vöru í umhverfisvænni umbúðum.

Veraldarvefurinn er uppfullur af fólki sem er að huga að þessum málum. Hér er til að mynda nokkrar lausnir: