Af hverju ætti fólk að hafa áhuga á og áhyggjur af loftslagsmálum? Það hefur nóg annað að gera. Nóg af öðrum áhyggjum. Nóg á þeirra könnu. Það er óþarfi að bæta við einhverju sem virðist ekki einu sinni vera vandamál. But it is. Skoðum það en byrjum á grundvallaratriðunum.

Gróðurhúsaáhrif er hugtak sem flestir hafa heyrt. Þegar geislar sólarinnar lenda á jörðinni, endurkastast hluti þeirra. Lendi endurkastsgeislarnir á gróðurhúsalofttegundum í lofthjúpnum, t.d. koltvísýringi, metani, vatnsgufu, nituroxíði og brennisteinshexaflúoríði, kastast geislarnir í allar áttir í stað þess að sleppa út úrlofthjúpnum.

Gróðurhúsalofttegundir loka því hitann inni í lofthjúpi jarðar. Án þeirra væri jörðin klakabolti en of mikið af þeim leiðir til hlýnunnar, enda sleppa þá enn færri geislar út fyrir lofthjúpinn.

Í kringum 1850 var iðnbyltingin að hefjast og mannkyn, sem þá var 80% stritandi bændur, uppgötvaði almennilega orkuna í jarðefnaeldsneyti (kolum, olíu og gasi). Þegar jarðefnaeldsneyti er brennt, sem og þarf að gera til að heimta orkuna úr því, binst kolefnið við súrefni og myndar koltvísýring sem losnar út í andrúmsloftið (The Climate Reality Project 2019).  Munum: því meiri gróðurhúsalofttegundir, því meiri hiti. Grafið (Michael E. Mann 1998) hér að neðan sýnir þróun hitastigs vel.

Hér má sjá að hitastig hefur aukist í samræmi við aukningu koltvísýrings í andrúmslofti.

Í dag á útblásturinn aðallega uppruna sinn að rekja til orkuframleiðslu, t.d. kolaorkuvera, samgangna, vöruframleiðslu og mannvirkjagerðar, heimila og þjónustu.

Parísarsamkomulagið

Fyrir 4 árum síðan náðu 195 þjóðir samkomulagi um að ráðast í aðgerðir til að halda hnattrænni hlýnun undir 2°C, miðað við hnattrænt meðalhitastig fyrir iðnbyltinguna, og jafnframt reyna að halda hlýnuninni undir 1,5°C. Þetta samkomulag ber heitið Parísarsamkomulagið. Samkomulagið biðlar einnig til þjóða að ná stigi samdráttar í útblæstri og kolefnishlutleysi sem fyrst. Efla hefur á síðu sinni ágætis samantekt um hugtakið kolefnisspor. Hér er tól sem reiknar út kolefnissporið þitt.

Horfur

IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change), milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, gegnir mikilvægu hlutverki á sviði loftslagsmála. Hún hefur það hlutverk að halda utanum fræðileg gögn og upplýsingar sem tengjast loftslagsmálum, og miðla til almennings og þeirra sem hafa að gera með stefnumörkum varðandi loftslagsmál heimsins (aðallega stjórnmála-og embættismenn) (sjá grein eftir Svein Atla á Loftslag.is.)

Nefndin gaf út skýrslu um sviðsmyndir við 1,5 og 2°C hnattræna hlýnun miðað við hnattrænt meðalhitastig fyrir iðnbyltinguna. Neðangreindar afleiðingar eru settar fram með miðlungs til háu öryggi:

 • Hitastig við miðbaug mun almennt hækka um 3°C á sumrin og hitastig á norðurslóðum um 4,5°C yfir sumartímann, Fjöldi heitra daga mun fjölga.
 • Eyðimerkur breiða úr sér, t.d. við Miðjarðarhaf.
 • Sífreri á 1,5-2,5 milljón km2 svæði bráðnar, svæði sem er 15-24x stærra en Ísland.
 • Líkur á að Norðurpóllinn verði hafíslaus einu sinni á hverjum áratug aukast töluvert ef hnattræn hlýnun helst undir 2°C miðað við hnattræna hlýnun sem helst 1,5°C.
 • Hækkun yfirborðs sjávar, vegna bráðnunar jökla, og söltun grunnvatns við strandlengjur. Neikvæð áhrif á sveita, strand- og eysamfélög verður meiri en önnur samfélög.
 • Tíðni kuldakasta mun minnka, en hitastig þeirra lækka, sér í lagi á þeim svæðum þar sem þegar er ís- eða snjóþekja.
 • Ákefð og tíðni úrkomu eykst á nokkrum svæðum (t.d. Íslandi) og sums staðar mun tíðni og ákefð þurrka aukast.
 • Frárennsli eykst sem og flóðahætta á sumum svæðum.
 • Lítil úrkoma annars staðar mun leiða til álags á vatnsforða og vatnsskorts.
 • Uppskerubrestir, svo sem á maís, hrísgrjónum, hveiti og öðru kornmeti, sérstaklega við Miðbaug.
 • Húsdýrum mun fækka, fæðuöryggi minnkar, næringaskortur.
 • Áköf veður valda skemmdum á eignum og innviðum, orkuöflun minnka, hagvöxtur dregst saman, ferðamannaflaumur minnkar, fátækt og ójöfnuður eykst.
 • Fólksflutningar og -flótti.
 • Áframhaldandi súrnun sjávar hefur neikvæð áhrif á sjávarlífverur.
 • Sjávarlífverur færa sig nær pólunum og fiskur á lágum breiddargráðum (s.s. við miðbaug) verður takmarkaður.
 • Vistkerfi hrynja, svo sem fen og votlendi, kóralrif, þaraskógar.
 • Súrefnisþurrð í sjó leiðir til dauðra svæða.
 • 8-18% hryggdýra, skordýra og plantna mun hverfa við 2°C hækkun en einungis 2-6% við 1,5°C.
 • Skógareldar.
 • Ágengar tegundir lífvera munu breiða úr sér. Útbreiðsla sjúkdóma á borð við malaríu og beinbrunasótt vegna hitabylgna.

Til ítrekunar þá er upptalningin hér að ofan miðlungs til mjög líklegar afleiðingar ef við náum markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Sviðsmyndir

Neðangreint graf sýnir fjórar sviðsmyndir er varða losun gróðurhúsalofttegunda, RCP8.5, 6, 4.5 og 2.6. Besta útkoman er blái ferillinn, RCP2.6, en til þess að ná því þarf samhent átak. Samdráttur í útblæstri þarf að hefjast med det samme.

Myndaniðurstaða fyrir rcp2.6
RCP8.5: Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast. Ekki ráðist í neinar aðgerðir til þess að sporna við hlýnuninni.
RCP 4.5 og 6: Ýmsar tæknilausnir og aðferðir við að draga úr losun leiða til þess að hlýnun staðnar rétt eftir 2100.
RCP2.6: Harðar mótvægisaðgerðir til að sporna við hlýnuninni og draga úr losun allra gróðurhúsalofttegunda og loftmengunar.
Heimild.

Staðan

IPCC hafa reiknað út hversu mikið af koltvísýringi við megum losa til viðbótar til þess að það séu 67% líkur á að við höldum hlýnun undir 1.5°C og eins og útblástur okkar er um þessar mundir þá klárum við þær birgðir á áratug. Þá hafa líkurnar á að halda hlýnun undir 1,5°C lækkað úr 67% niður í 50%.

“Í aðdraganda Parísarsamkomulagsins sendu aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna inn yfirlýsingar um það hversu mikið þær hygðust draga úr losun á næstu áratugum. Ljóst er að heildarárhif þessara loforða munu ekki ná að uppfylla markmið samkomulagsins. Yfirlýsingarnar ná flestar einungis til 2030 en ef gert er ráð fyrir álíka metnaði aðildarþjóða næstu áratugi eftir þá verður hlýnunin á bilinu 2.6–3.2°C.” (Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Ísland, bls. 35).

Ímyndum okkur afleiðingarnar sem listaðar eru hér að ofan ef hlýnunin fer upp fyrir 2°C. Þá má draga upp enn svartari mynd af framtíð mannkyns, sem þegar er farin að sortna.

Þess vegna hafa ungmenni á borð við Gretu Thunberg gripið til aðgerða til að vekja athygli á málefninu, s.s. loftslagsverkfalla. Þess vegna er Greta Thunberg svona sár og reið þar sem hún flytur ræðuna hér að ofan. Þess vegna er vont að horfa upp á aðgerðarleysi þjóða, stjórnvalda, einstaklinga.